Upptaka af opnunarfundi Stjórnmála & stjórnsýslu

2. tölublað 16. árgangs tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla kom út fimmtudaginn 17. desember, með tíu ritrýndum fræðigreinum. Vefslóð tímaritsins er www.irpa.is. Í tengslum við útgáfuna var haldinn fjölsóttur opinn fundur í netstreymi. Þar kynnti Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, prófessor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, grein sína Glæpavæðing mannlegra mistaka í heilbrigðisþjónustu: Hvernig og hvers vegna lagaleg ábyrgð getur rutt faglegri ábyrgð til hliðar og grafið undan öryggi sjúklinga.
 
Í greininni fjallar Sigurbjörg um áhrif ákæru sem birt var í maí 2014 á hendur íslenskum hjúkrunarfræðingi fyrir manndráp af gáleysi. Á grundvelli m.a. málsatviksrannsóknar með djúpviðtölum og könnunar meðal allra starfandi hjúkrunarfræðinga á landinu kemst höfundur m.a. að þeim niðurstöðum að málið hafi leitt til aukins óöryggis meðal hjúkrunarfræðinga í starfi og mögulega valdið bakslagi í þróun faglegrar ábyrgðarskyldu sem gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir öryggi sjúklinga.
 
Fundarstjóri var Eva Marín Hlynsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, sem m.a. á sæti í ritstjórn tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla.
 
18. desember 2020 - 9:30
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is