Útgáfa Tímarits um viðskipti og efnahagsmál 19.des n.k.

Útgáfuboð og fyrirlestur í tilefni af útkomu 2. tbl. 14. árg. Tímarits um viðskipti og efnahagsmál (www.efnahagsmal.is) verður haldið n.k. þriðjudag þann 19. desember kl. 16:30 í stofu 101 á Háskólatorgi (Ingjaldsstofa), í Háskóla Íslands.

Við opnunina kynna Freyja Gunnlaugsdóttir og Runólfur Smári Steinþórsson grein sína sem er meðal efnis í tímaritinu. Fyrirspurnir og umræður verða að loknu erindi þeirra, og síðan verður boðið upp á léttar veitingar.

Grein Freyju og Runólfs Smára ber titilinn Einkenni og áskoranir tónlistarklasa á Íslandi. Greinin fjallar um þróun tónlistarlífs á Íslandi á undanförnum árum. Margir íslenskir tónlistarmenn hafa átt velgengi að fagna og skapað sér nafn á alþjóðlegum markaði. Stjórnvöld hafa stutt við þróunina á ýmsan hátt og þau hafa mikil áhrif á tónlistarlífið. Umsvifin í greininni benda til að þróunin undanfarin ár hafi ýtt undir myndun klasa í tónlist á Íslandi. Markmiðið með þessari grein er að rannsaka þróun tónlistarlífs á Íslandi út frá kenningum um klasa og samkeppnishæfni. Einnig er þróunin á Íslandi borin saman við þekkta tónlistarklasa erlendis. Byggt er á raundæmisrannsókn þar sem spurt er að hvaða marki megi líta á tónlist á Íslandi sem klasa og ef svo er á hvaða stigi klasaþróunar íslenskur tónlistarklasi kunni að vera. Einnig er spurt um hvaða áskoranir tónlistarklasinn kunni að standa frammi fyrir. Niðurstöður gefa til kynna skýrar vísbendingar um tónlistarklasa á Íslandi og að klasinn sé að færast af mótunarstigi yfir á þróunarstig. Í niðurstöðum felst hagnýtt gildi því varpað er ljósi á atriði og aðstæður sem geta ýtt undir frekari uppbyggingu á sterkum tónlistarklasa á Íslandi. Samhliða er tónlistarklasinn dæmi um klasa í litlu fámennu landi og niðurstöðurnar framlag til þekkingar á klasa í slíkum aðstæðum.

Greinarnar í tímaritinu fjalla um fjölbreytt efni sem snýr að íslensku viðskiptalífi og efnahagsmálum frá fræðimönnum við íslenska háskóla.

Eftirfarandi ritrýndar greinar verða birtar í tímaritinu að þessu sinni:

  1. The Dairy Farming Support System. Do the direct payments cause economic inefficiency? Höfundar: Anna Guðrún Ragnarsdóttir, Birgir Þór Runólfsson og Ragnar Arnason
  2. Einkenni og áskoranir tónlistarklasa á Íslandi. Höfundar: Freyja Gunnlaugsdóttir og Runólfur Smári Steinþórsson
  3. Reglugerðarumhverfi frumkvöðla: Greining á stöðu og tækifærum til úrbóta. Höfundar: Gunnar Óskarsson og Hermann Þór Þráinsson        
  4. „Hagsmunir hverra ráða?“: Upplifun stjórnenda og sérfræðinga á áhrifum birtinga umsækjendalista á umsækjendur í opinberum ráðningum. Höfundar: Sigríður Pétursdóttir, Svala Guðmundsdóttir og Erla S. Kristjánsdóttir
  5. Asset Allocation Driven by Liabilities: Application to the Icelandic Pension System. Höfundar: Guðmundur Magnússon og Sverrir Ólafsson

Allir velkomnir.

13. desember 2017 - 12:30
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is