Útgáfa haustheftis Tímarits um viðskipti og efnahagsmál (TVE) 18. desember 2018

Útgáfa haustheftis Tímarits um viðskipti og efnahagsmál 18. desember 2018

Útgáfuboð og fyrirlestur í tilefni af útkomu 2. tbl. 15. árg. Tímarits um viðskipti og efnahagsmál (www.efnahagsmal.is) verður haldið þriðjudaginn 18. desember, kl. 16:30, í stofu 101 á Háskólatorgi (Ingjaldsstofa), í Háskóla Íslands.

Við opnunina kynnir dr. Gylfi Magnússon, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, grein sína sem er meðal efnis í tímaritinu. Fyrirspurnir og umræður verða að loknu erindi hans, og síðan verður boðið upp á léttar veitingar. Öll velkomin.

Grein Gylfa ber titilinn: Ávöxtun og áhætta íslenskra lífeyrissjóða 1993-2017. Í grein sinni skoðar Gylfi ávöxtun samtryggingardeilda íslenskra lífeyrissjóða yfir tímabilið 1997 til 2017. Í ljós kemur að ávöxtun lífeyrissjóða sem heildar hefur verið nokkuð viðunandi fyrir þetta tímabil. Meðalraunávöxtun sjóðanna var 3,73% á ári. Það má segja að ávöxtun sjóðana sé í takti við það sem vænta mátti í ljósi þess hvaða eignaflokka sjóðirnir kaupa og hruns innlends fjármálamarkaðar árið 2008. Nánari skoðun sýnir að áhættuálag sjóðanna hefur verið hverfandi. Jafnvel þó sjóðirnir hafi tekið verulega áhættu hafa þegar upp er staðið endað með ávöxtun sem samsvarar nokkurn veginn áhættulausum vöxtum. Verulegur munur er milli sjóða hvað varðar áhættusækni og ávöxtun sem á móti hefur áhrif á getu þeirra til að greiða lífeyri. Jafnframt er verulegur munur á þeim hópum sem greiða í hvern sjóð sem einnig hefur áhrif á lífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga. Allt þetta veldur því að lífeyriskerfið býr til töluverða óvissu um lífskjör lífeyrisþega eftir sjóðum. Gylfi bendir á í grein sinni að hægt væri að gera breytingar á kerfinu sem myndu draga úr áhættu við það frá sjónarhóli einstakra launþega.

Greinarnar í tímaritinu fjalla um fjölbreytt efni sem snýr að íslensku viðskiptalífi og efnahagsmálum frá fræðimönnum við íslenska háskóla. Eftirfarandi ritrýndar greinar eru birtar í tímaritinu að þessu sinni:

1. Sjávarútvegur, karllæg atvinnugrein: ,,þeir hefðu ekki gúdderað einhverja stelpugálu – nema af því að ég var tengd“. Höfundar: Ásta Dís Óladóttir og Guðfinna Pétursdóttir.

2. Stefnumiðaðir stjórnarhættir: Dæmi frá Orkuveitu Reykjavíkur. Höfundar: Runólfur Smári Steinþórsson, Guðrún Erla Jónsdóttir og Bjarni Snæbjörn Jónsson.

3. Einelti á íslenskum vinnustöðum. Höfundar: Ásta Snorradóttir og Kristinn Tómasson.

4. Eru íslenskir neytendur smálána ólæsir á fjármál? Höfundar: Davíð Arnarson, Kári Kristinsson og Sigurður Guðjónsson.

5. Endurskoðunarnefndir: Samsetning og góðir stjórnarhættir. Höfundar: Einar Guðbjartsson, Eyþór Ívar Jónsson og Jón Snorri Snorrason.

6. Vinnusókn til höfuðborgarsvæðisins frá öðrum byggðarlögum á Suðvesturlandi. Höfundar: Þóroddur Bjarnason og Sigríður Elín Þórðardóttir.

7. Áherslur stjórnenda árangursríkra fyrirtækja og hugmyndafræði þjónandi forystu. Höfundar: Sigurbjörg Hjálmarsdóttir og Sigrún Gunnarsdóttir.

8. Ávöxtun og áhætta íslenskra lífeyrissjóða 1993-2017. Höfundur: Gylfi Magnússon.

Tímaritið er gefið út í samvinnu viðskipta- og hagfræðideilda Háskóla Íslands, viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík og Seðlabanka Íslands. Í ritstjórn sitja þau Gylfi Zoega, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands, formaður ritstjórnar; Birgir Þór Runólfsson, dósent við Hagfræðideild Háskóla Íslands; Þórhallur Örn Gudlaugsson, dósent við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands; og Þröstur Olaf Sigurjónsson, dósent í viðskiptafræði Háskólans í Reykjavík. Umsjón með útgáfu hefur Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Allar nánari upplýsingar veitir Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, í síma 525-5454 eða í gegnum netfangið sjofn@hi.is

 

 

12. desember 2018 - 15:30
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is