
- NÝTT NÁMSKEIÐ -
Persónuvernd: Hvaða réttindi hafa einstaklingar gagnvart stofnunum, fyrirtækjum og öðrum aðilum sem vinna með persónuupplýsingar?
Námskeið haldið miðvikudaginn 27. maí 2020, kl. 09:00-12:30 í húsnæði Háskóla Íslands við Sæmundargötu.
Smelltu hér til að skrá þig á námskeiðið
Vekjum athygli á að námskeiðið stendur einnig til boða í fjarnámi. Fjarnámið er sent út í beinu streymi og einnig verður upptaka af námskeiðinu aðgengileg eftir að því lýkur.
Í staðnámi verður gætt að fjöldatakmörkunum og farið er eftir tilmælum sóttvarnalæknis og embættis landlæknis er varðar fjarlægðarmörk.
Þátttökugjald er kr. 18.200-
Athugið að sé námskeiðið "Gildissvið upplýsingalaga og helstu reglur laganna" einnig tekið í stað- eða fjarnámi er 20% afsláttur veittur af heildarverði. Smelltu hér til að sjá nánar um námskeiðið.
Umsjónarmaður og fyrirlesari er Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.
Viðfangsefni: Á námskeiðinu verður fjallað um hvaða kröfur verða leiddar af núgildandi persónuverndarlögum nr. 90/2018 og samsvarandi reglugerð ESB (GDPR) um réttindi skráðra aðila (III.kafli persónuverndarlaga og GDPR).
Markhópur: Starfsmenn opinberra stofnana, fyrirtækja og félagasamtaka og allir aðrir sem vinna með álitaefni tengd lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
Markmið: Að veita þátttakendum yfirsýn yfir helstu álitamál og reglur þannig að þeir auki færni sína í að taka réttar ákvarðanir þegar skráðir aðilar neyta réttar síns samkvæmt lögunum nr. 90/2018, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í námskeiðinu verður beint sjónum að helstu álitaefnum sem reynir á í þessu sambandi, eins og m.a.
- Hvaða kröfur eru gerðar til þess að vinnsla persónuupplýsinga hjá stjórnvöldum og fyrirtækjum sé gagnsæ?
- Hvaða upplýsingar er skylt að veita einstaklingum þegar persónuupplýsinga er aflað frá þeim sjálfum?
- Hvernig er upplýsingaskyldu háttað til einstaklinga þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en þeim sjálfum?
- Hvaða rétt hafa skráðir aðilar til að krefjast þess að upplýsingar um þá séu leiðréttar og þeim hugsanlega eytt? (Fjallað verður sérstaklega um málaferli í Evrópu á hendur Google í þessu sambandi).
- Hvaða áhrif hafa ákvæði upplýsingalaga nr. 140/2012 og laga nr. 77/2014, um opinber skjalasöfn, á það hvernig stjórnvöld leysa úr beiðnum sem settar eru fram á grundvelli persónuverndarlaga?
Kjartan Bjarni er dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, en hann hefur áður starfað sem formaður rannsóknarnefndar Alþingis, aðstoðarmaður umboðsmanns Alþingis og lögfræðingur við EFTA-dómstólinn. Kjartan hefur kennt stjórnsýslurétt og opinberan starfsmannarétt við Háskóla Íslands frá 2004 en hann var einnig dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík 2016-2018.