
Mánudaginn 1. febrúar standa Félag stjórnmálafræðinga, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands fyrir opnum fundi þar sem rætt verður um tjáningarfrelsi og ritskoðun í þeim nýja raunveruleika sem samfélagsmiðlar hafa skapað.
Í eftirmála forsetakosninga í Bandaríkjunum sauð uppúr og æstur múgur gerði innrás í þinghúsið þegar kjör Joes Bidens var formlega staðfest. Í kjölfarið lokuðu helstu samfélagsmiðlar aðgangi Donalds Trumps sem hafði nýtt sér Twitter óspart í forsetaembætti, nánast gefið út tilskipanir á þeim vettvangi. Skiptar skoðanir hafa verið á réttmæti þessara lokana en helstu rök miðlanna hafa verið að málflutningur forsetans sé hreinlega svo hættulegur að ekki sé stætt á öðru en loka aðgangi hans.
Á þessum fundi fjalla Elfa Ýr Gylfadóttir fjölmiðlafræðingur og María Rún Bjarnadóttir lögfræðingur um málfrelsi og ritskoðun í þessu nýja umhverfi samfélagsmiðla. Sævar Finnbogason stjórnmálaheimspekingur stýrir umræðunum.
Fundurinn verður haldinn mánudaginn 1. febrúar kl. 16:00-17:00 og verður streymt í gegnum Zoom. Þátttakendum gefst kostur á að setja fram fyrirspurnir í gegnum spjallbox fundarins.
Fundurinn er öllum opinn og fer fram á íslensku. Hlekkur á streymið: https://eu01web.zoom.us/j/64010046381
25. janúar 2021 - 11:30