Upptaka – „Uppgjörið: Íslensk stjórnmál eru skrambi góð!“ Opinn fundur um uppgjör við efnahagsáföll

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála hélt opinn fund í Odda 101 þriðjudaginn 16. nóvember þar sem Ragnar Hjálmarsson greindi frá þeim umbreytingarferlum (e. transitional justice mechanisms) sem hægt er að beita eftir efnahagsáföll, þá sérstaklega stofnun sannleiksnefnda, lögsóknum og réttarhöldum, kröfum um skaðabætur og breytingum á stjórnarskrá.
 
Það er þekkt og hefur lengi tíðkast að gripið sé til slíkra úrræða í kjölfar hernaðar- og samfélagsátaka, en að þeim sé beitt eftir hrun sem er fyrst og fremst af efnahagslegum toga er nokkur nýlunda. Ragnar fór yfir hvað megi læra af nýlegri reynslu Íslands og annarra ríkja hvað þetta varðar, sem og af hverju uppgjör Íslands er einstakt í alþjóðlegum samanburði  ̶  og um leið alls ekki.
 
Erindi Ragnars byggði á niðurstöðum doktorsritgerðar hans „Transitional Justice after Economic Crisis“ sem hann varði nýlega við Hertie háskólann í Berlín, sem og niðurstöðum fjölþjóðlegs rannsóknarverkefnis,  „Accountability after Economic Crisis“, þar sem borin eru saman viðbrögð sex landa (Íslands, Írlands, Spánar, Portúgals, Kýpur og Grikklands) við alþjóðlegu fjármálakreppunni.
 
 
Ragnar Hjálmarsson er doktor í stjórnarháttum (e. governance) og starfar sem ráðgjafi fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Hann var skrifstofustjóri á skrifstofu AGS í Reykjavík og vann að framgangi efnahagsáætlunar stjórnvalda og sjóðsins. Þar áður starfaði Ragnar fyrir friðaruppbyggingarstofnunina Conciliation Resources og íslensku utanríkisþjónustuna.
 
Fundinum stýrði Kristrún Heimisdóttir, lektor við Lagadeild Háskólans á Bifröst.
16. nóvember 2021 - 13:30
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is