Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála var stofnuð árið 2002 og var fyrsta heila starfsár hennar 2003.
- Hún er rannsóknar- og þjónustustofnun stjórnmálafræðideildar og hennar samstarfsaðila og starfar sem sjálfstæður aðili í tengslum við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
- Að stofnuninni standa auk Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg og Landspítali-háskólasjúkrahús.
- Stofnunin starfar náið með fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum, innlendum sem erlendum eftir því sem tilefni gefast.
- Stofnun stjórnsýslufræða leitast við að ná markmiðum sínum annars vegar á vettvangi þjóðlífs og hins vegar á vettvangi Háskóla Íslands.
Á vettvangi þjóðlífs er áhersla lögð á að efla tengsl fræðasamfélagsins í Háskóla Íslands við forystumenn í þjóðlífi, þ.m.t. stjórnmálamenn, embættismenn og forystumenn atvinnulífs- og hagsmunasamtaka; standa fyrir innlendum sem alþjóðlegum ráðstefnum og námskeiðahaldi; efla umræðu og rannsóknir á tengslum fjölmiðla, stjórnmála og opinberrar stefnumótunar; gefa út og kynna niðurstöður rannsókna; og leita nýrra leiða til að afla fjár til verkefna stofnunarinnar.
Á vettvangi Háskólans leggur stofnunin áherslu á að efla framhaldsnám, hagnýt námskeið og rannsóknir á sviði stjórnsýslu- og stjórnmálafræða innan stjórnmálafræðideildar; stuðla að þverfræðilegri samvinnu innan skólans og veita stjórnmálafræðideild og öðrum aðilum innan sem utan skólans þjónustu á sviði fræðanna.
Á vegum stofnunarinnar starfar rannsóknarborð í stjórnmálum og stjórnsýslufræðum sem er samstarfsvettvangur fræðimanna sem stunda rannsóknir á fræðasviðunum og samstarfsaðila þeirra. Tilgangur rannsóknarborðsins er m.a. að efla rannsóknir og nýsköpun á sviði opinberrar stjórnsýslu og stjórnmála, auka samstarf milli fræðimanna á þessum sviðum, vera samræðuvettvangur fræðanna og þeirra sem starfa við opinbera stjórnsýslu og stjórnmál og vera vettvangur miðlunar þekkingar og hagnýtrar reynslu.