Viðburðir 2006

Áhrif eða áhrifaleysi Íslands á reglusetningu Evrópusambandsins, ákvarðanir og stefnumótun innan ESB. Opinn fundur 6. janúar kl. 12.00-13.15 í samstarfi við Evrópusamtökin. Eitt lykilatriða í umræðum um það hvort Ísland eigi erindi inní Evrópusambandið er spurningin um áhrif á reglusetningu ESB og þar með Evrópska efnahagssvæðisins. Í fyrirlestrinum fjallaði Daði Einarsson stjórnsýslufræðingur sem starfar innan framkvæmdastjórnar ESB, um þetta atriði. Hann byggði m.a. á sinni reynslu, en undanfarin tvö ár hefur hann starfað hjá ESB sem sérfræðingur í lýðheilsumálum. Fundarstjóri Andrés Pétursson formaður Evrópusamtakanna.
 
Heilbrigðisstefna og sameining sjúkrahúsa. Opinn hádegisfyrirlestur 10.febrúar og endurtekinn 13. febrúar á Akureyri í samstarfi við heilbrigðisdeild H.A. Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur kynnti helstu niðurstöður dr. ritgerðar sinnar, sem fjallar um aðdraganda að ákvörðun um sameiningu sjúkrahúsa í Reykjavík (Sjúkrahúss Reykjavíkur og Landspítala árið 2000) og Lundúnum (St. Thomas´s and Guy´s hospitals árið 1995), “Health Policy and Hospital Mergers: How the impossible became possible”. Fundarstjóri Margrét S. Björnsdóttir.
 
Slóvenía; Frá kommúnisma til frjálslynds lýðræðis. Opinn fyirlestur 24. febrúar kl. 12.15 – 13.30. Í maí 2004 gekk Slóvenía í Evrópusambandið. Sá atburður markaði lok þrettán ára umbreytingaskeiðs þessa nyrsta ríkis fyrrum Júgóslavíu, en á þeim tíma urðu gagngerar breytingar á nær öllum sviðum þess; félagslega, efnahagslega og stjórnmálalega. Fyrirlesari var Jerney Pikalo kennari í stjórnmálafræðum við Háskólann í Ljubliana í Slóveníu. Hann er höfundur bókarinnar Neoliberal Globalisation and the State (ZPS, 2003) og aðstoðarritstjóri Journal of International Relations and Development (published by Palgrave). Fundarstjóri var Margrét S. Björnsdóttir.
 
Heilbrigðisstefna til framtíðar- á hvaða leið erum við? Kynningar- og umræðufundur 10. mars kl. 14.00-17.00. Að fundinum stóðu heilbrigðisráðuneyti, Landspítaliháskólasjúkrahús og þrjár stofnanir Háskóla Íslands; Stofnun stjórnsýslufræða, Hagfræðistofnun og Siðfræðistofnun. Tilefni hans voru nýjar niðurstöður tveggja nefnda sem báðar fjalla um þau grundvallaratriði og lagaramma sem íslensku heilbrigðiskerfi er ætlað að mótast af á komandi árum. Formenn nefndanna þær Jónína Bjartmarz alþingismaður og Guðríður Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu, kynntu helstu niðurstöður. Axel Hall sérfræðingur Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og Þorkell Helgason fv. aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra og núverandi orkumálastjóri, fjölluðu stuttlega um nefndarálitin og þá framtíðarstefnu og -sýn sem í þeim felast. Fundarstjóri Pálmi V. Jónsson læknir og sviðsstjóri Landspítala- háskólasjúkrahúsi.
 
"Við eigum val um öðruvísi veröld" - World Social Forum 2006 í Malí, V-Afríku. Opinn fyrirlestur og myndasýning 29. mars kl. 12.15 - 13.15. Fyrirlesarar Malífaranir og alþjóðasamskiptanemarnir Alstair Grétarsson og Halla Gunnarsdóttir. Þau sögðu frá því sem þar fór fram, en skuldir fátækra Afríkuríkja, kvenréttindi í þróunarlöndum, enduruppbygging alþjóðastofnana, einkavæðingin, nýfrjálshyggjan, feðraveldið og umhverfið voru meðal umræðuefna þar. Um 30 þúsund manns sóttu samkomuna í Malí.
 
Frá Írak til Íran - Borgarastyrjöld og kjarnorkuvá? Opinn fyrirlestur 30. mars kl. 12.15 – 13.15. Þar var ma. spurt: Hvaða þætti ber að hafa í huga þegar staðan í Írak og Íran er metin? Gefur það rétta mynd af ástandinu að segja að borgarastyrjöld geisi í Írak? Eru Íranir að þróa kjarnorkuvopn og hvaða afleiðingar gæti það haft á öryggismál almennt í heiminum? Fyrirlesari dr. Magnús Þorkell Bernharðsson nýráðinn gistikennari í alþjóðasamskiptanámi H.Í. og lektor í nútímasögu Miðausturlanda við Williams háskóla í Bandaríkjunum.
 
Þróun reglna alþjóðasamfélagsins um valdbeitingu; tilraunir til að hefta útbreiðslu gereyðingavopna; umbætur í starfi Sameinuðu þjóðanna. Opinn fyrirlestur 7. apríl kl. 12.00-13.30/14.00 í samvinnu við Sendiráð Svíþjóðar og félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Fyrirlesarinn dr. Hans Blix ræddi um þrjú tengd efni og áhrif þeirra á stöðu mála í heiminum í dag; Hvernig hafa reglur alþjóðasamfélagsins um valdbeitingu þróast. Hvað hefur verið gert og hvað er að gerast varðandi tilraunir til að hefta útbreiðslu og eyða gereyðingavopnum- kjarnorkuvopnum, efnaog lífrækni vopnum og loks mun hann fjalla um umbætur Sameinuðu Þjóðanna á liðnum árum." Auk þess hélt dr. Hans Blix málstofu fyrir meistaranemendur Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum, þar sem reynsla og hlutverk Blix sem yfirmanns vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í Írak var greind og rædd í ljósi kenninga um samningatækni í alþjóðasamskiptum. Dr. Hans Blix er formaður nefndar gegn gereyðingaervopnum (WMDC), hann er fyrrverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar, fyrrverandi yfirmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna (UNMOVIC) og fyrrverandi aðalforstjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA). Fundarstjóri Brynhildur Ólafsdóttir forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar H.Í. og yfirm. erlendra frétta hjá NFS.
 
Hvernig getum við bætt ímynd stjórnsýslunnar gagnvart borgurunum? Málþing í samstarfi við Félag forstöðumanna ríkisstofnana 5. maí kl. 8.30 – 10.30. Fyrirlesarar Tryggvi Gunnarsson lögfræðingur, umboðsmaður Alþingis og Erna Indriðadóttir MPA, verkefnisstjóri upplýsinga- og samfélagsmála hjá Alcoa, en hún er fv. fréttamaður og var stundakennari við H.Í. í almannatengslum opinberra stofnana. Pallborðsumræður; Brynjólfur Bjarnason forstjóri Símans, en það fyrirtæki hefur tekið miklum stakkaskiptum hvað þessi mál varðar eftir einkavæðingu þess, Ellý Kartín Guðmundsdóttir sviðsstj. Umhverfissviðs Rvk.borgar, en því sviði tilheyra fjölmörg verkefni þar sem reynir mjög á tengslin við íbúa, jafnt sem fyrirtæki borgarinnar og Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ, en þar eins og í fleiri sveitarfélögum hefur verið unnið að bættum tengslum við íbúana með margvíslegum hætti, td. með upplýsingaverkefninu Minn Garðabær, sem tryggja á beinan aðgang íbúa að stjórnsýslu bæjarins. Fundarstjóri Magnús Pétursson forstjóri Landspítala- háskólasjúkrahúss.
 
Pólitísk afskipti af skipunum æðstu embættismanna og ráðningar hjá hinu opinbera. Málþing 24. maí kl. 8.30 – 10.45 í tilefni af útkomu 2. tölublaðs Vefrits um Stjórnmál og stjórnsýslu. Gunnar Helgi Kristinsson professor kynnti rannsókn sína um skipanir æðstu embættismanna ríkisins sl. sex ár og að hve miklu leyti megi halda fram að þar hafi pólitísk sjónarmið haft áhrif; Pólitískar stöðuveitingar á Íslandi, hversu útbreiddar eru þær Auk hans fluttu erindi þeir; Ásmundur Helgason lögfræðingur, stundakennari í lagadeild H.Í. og í opinberri stjórnsýsl; Lagareglur um opinberar starfsveitingar, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson lektor og sérfræðingur í mannauðsstjórnun; Geta aðferðir mannauðsstjórnunar aukið gæði ráðninga hjá hinu opinbera? Gylfi og Ómar H. Kristmundsson lektor í stjórnsýslufræðum; Skipanir embættismanna í sögulegu og alþjóðlegu samhengi. Fundarstjóri Margrét S. Björnsdóttir forstöðumaður.
 
Hvernig geta konur leitað réttar síns í klerkaveldinu Íran? Opin myndasýning og umræður 20. september kl. 20.00-22.30, í samstarfi við stjórnmálafræðiskor.Sýnd var og rædd athyglisverð heimildamynd um stöðu íranskra kvenna. Umræðum stýrði dr. Magnús Þorkell Bernharðsson. Í myndinni "Divorce Iranian Style" (1998) er fylgst með konum í Íran, sem sækjast eftir lögskilnaði við eiginmenn sína. Myndin veitir góða innsýn í íranskt samfélag, um réttarfarið þar og stöðu kvenna. Frá árinu 1979 eða þegar íslamska byltingin átti sér stað í Íran, hafa ákvæði sjaría laganna um hjúskaparrétt verið í gildi í Íran. Í því kerfi er konum sniðinn þröngur stakkur, ef þær vilja losna úr hjónabandi.
 
Hvað ef Bretar ganga úr Evrópusambandinu? Opinn fundur 5. október kl. 12.10 – 13.15 í samstarfi við Heimssýn, hreyfingu sálfstæðissinna í Evrópumálum. Fyrirlesarinn Christopher Heaton-Harris, þingmaður breska Íhaldsflokksins á þingi Evrópusambandsins, fór yfir spurningarnar; Hvers vegna gætir mikillar andstöðu meðal Breta við Evrópusambandið og hvaða ástæður liggja þar helst til grundvallar? Er líklegt að Bretar kunni að ganga úr sambandinu á komandi árum? Hvað tæki þá við hjá þeim og hvaða áhrif hefði það á stöðu Íslands? Christopher Heaton-Harris var fyrst kjörinn á Evrópusambandsþingið árið 1999 og síðan endurkjörinn 2004. Hann á sæti í þeirri nefnd þingsins sem fjallar um málefni innri markaðar Evrópusambandsins auk nefndar sem hefur með samskipti sambandsins við ríki Suður-Ameríku að gera.
 
Aðgerðir til að auka með mælanlegum hætti framleiðni og gæði í opinberri stjórnsýslu. Málþing 6. október kl. 8.15-10.30 í samstarfi við Félag forstöðumanna ríkisstofnana. Finnar hafa á undanförnum árum vakið heimsathygli fyrir mikinn árangur á mörgum sviðum m.a. í ríkisrekstri, samkeppnishæfni, árangri í menntun og nýsköpun o.fl. Kynnt var reynsla Finna af verkefninu “Government 12 Productivity Action” 2003-2007, en í samanburði ESB á framleiðni í opinberum rekstri hefur Finnland mælst með bestan árangur. Fyirlesari; Heikki Jousti aðstoðarforstöðumaður stjórnsýsludeildar finnska fjármálaráðuneytisins og einn yfirmanna verkefnisins af hálfu þess. Málþinginu stýrði dr. Anna Lilja Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri fjárrreiðna- og upplýsinga hjá LSH, en panelumræðum, Óli Jón Jónsson skrifstofustjóri stjórnsýslusviðs Ríkisendurskoðanda. Í pallborði voru ásamt honum Arnar Þór Másson frá fjármálaráðuneyti og Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri í samgönguráðuneyti.
 
Áhrif leiðtogafundarins í Höfða 1986 á lok kalda stríðsins. Hvað segja nýbirt skjöl úr rússneskum og bandarískum ríkisskjalasöfnum okkur um fundinn? Opið málþing 13. október í samstarfi við Reykjavíkurborg og Icelandair í tilefni af því að tuttugu ár voru liðin frá því að leiðtogafundur Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhails Gorbachev Sovétleiðtoga var haldinn í Höfða þann 11. og 12. október 1986. Ávörp fluttu Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Kynntar voru rannsóknir þriggja fræðimanna á niðurstöðum nýbirtra skjala ríkjanna tveggja um áhrif fundarins á tengsl stórveldanna og þessara tveggja forystumanna. Fyrirlesarar voru William Taubman professor sem nú vinnur að ævisögu Gorbachevs, en hann hlaut Pulitzer-verðlaun árið 2004 fyrir ævisögu Nikita Krusjeff; fyrirlestur hans nefndist The Role of the Reykjavík Summit in Mikhail Gorbachev’s Biography og Svetlana Savranskaya forstöðumaður verkefna hjá National Security Archive við George Washington University. Hún stýrir samstarfi þess við rússnesk skjalasöfn og er ritstjóri gagnasafns NSA um fyrrum Austurblokkina og hefur nýlokið rannsókn á rússneskum stjórnarskjölum um leiðtogafundinn 1986; hennar fyrirlestur nefndist; A Breakthrough to Trust: Reykjavik as a Milestone in U.S. Soviet Relations og loks Thomas Blanton forstöðumaður National Security Archive við George Washington University, sem hefur rannsakað bandarísk skjöl frá Höfðafundinum; hans fyrirlestur nefndist; Reagan and Reykjavík: How Close to Nuclear Abolition? Í lokin voru niðurstöður þeirra ræddar í pallborði undir stjórn Vals Ingimundarsonar prófessors.
 
Hlutafélagavæðing opinberrar starfsemi – kostir og gallar. Málþing 31. október kl. 8.15-10.15 í samstarfi við Félag forstöðumanna ríkisstofnana. Farið var yfir kosti og galla hlutafélagaformsins í opinberri starfsemi og það borið saman við hefðbundið form opinbers rekstrar. Fyrirlesarar Arnar Þór Másson, sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu og aðjúnkt við stjórnmálafræðiskor HÍ, Páll Magnússon útvarpsstjóri og Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matvíss ohf. Fundarstjóri Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri.
 
Tjáningafrelsi opinberra starfsmanna og hollustuskylda þeirra. Haustmálþing Íslandsdeildar norræna stjórnsýslusambandsins í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða, þann 16. nóvember kl. 15.00-18.00. Opinberir starfsmenn njóta tjáningarfrelsis eins og aðrir, á móti kemur að lagt er til grundvallar í íslenskum rétti að hollustuskylda hvíli á opinberum starfsmönnum gagnvart vinnuveitanda sínum. Þá eru opinberir starfsmenn að jafnaði bundnir þagnarskyldu um störf sín. Á málstofunni var leitast við að varpa ljósi á þá togstreitu sem þetta kann að skapa. Fyrirlestra fluttu; Ragnhildur Helgadóttir prófessor H.R.; um réttarstöðu opinberra starfsmanna, Þorkell Helgason orkumálastjóri; frá sjónarhóli stjórnanda í opinberri stofnun og Sigríður Dögg Auðunsdóttir blaðamaður; út frá þeirri skyldu fjölmiðla að upplýsa um starfsemi hins opinbera og gæta hagsmuna almennings. Fundarstjóri Björg Thorarensen prófessor.
 
Opinberar stofnanir í orrahríð fjölmiðla. Málþing 23. nóvember kl. 8.15-10.15 í samstarfi við Félag forstöðumanna ríkisstofnana. Á undanförnum árum hefur umræða og fjölmiðlun um opinberar stofnanir breyst mikið. Opinber fyrirtæki og stofnanir eru mun oftar gagnrýnd en áður Auknar kröfur eru um gagnsæi og upplýsingar. Fjölmiðlar, hagsmunaaðilar, almennir borgarar og starfsmenn stofnana eiga frumkvæði að opinberri umræðu um viðfangsefni og starfshætti stofnana. Þetta hefur í för með sér að stofnanir og fyrirtæki í opinberri eigu þurfa að vera betur undir það búin að eiga samskipti við fjölmiðla og taka þátt umræðu í þjóðfélaginu. Um þetta var fjallað; fyrirlesarar voru Friðrik Sophusson forstjóri Landsvirkjunar og Magnús Pétursson forstjóri Landsspítala - háskólasjúkrahúss. Ásamt þeim sátu í pallborði þau Elín Hirst fréttastjóri og Gunnar Steinn Pálsson markaðs- og kynningarráðgjafi Fundarstjóri Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra.
 
Ógnuðu þeir öryggi ríkisins? Opinn umræðufundur 7. desember kl. 12.00-13.15 í tilefni útkomu bókar Guðna Th. Jóhannessonar - Óvinir ríkisins. Viðfangsefni bókarinnar ræddu höfundurinn Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur, ásamt Einar Kr. Guðfinnssyni alþingismanni og ráðherra og Jóni Baldvin Hannibalssyni fv. ráðherra og gestakennara við stjórnmálafræðiskor H.Í. Fundarstjóri Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði.
 
Opinn fundur, kynning höfunda á efni 3ja tölublaðs vefritsins Stjórnmál og stjórnsýsla. 14. desember kl. 16:30 var opinn kynningarfundur og móttaka í tilefni af útkomu þriðja tölublaðs þar sem höfundar ritrýndu greinanna kynntu stuttlega efni og helstu niðurstöður sinna greina. Ritrýndu greinarnar fjölluðu um verkföll á íslenskum vinnumarkaði, íslenskt skatta og velferðarkerfi, stöðu og vald ráðherra og íslenska utanríkisstefnu. Höfundar eru Gunnar Helgi Kristinsson prófessor, Gylfi Dalmann Aðalsteinsson lektor, Stefán Ólafsson prófessor og Baldur Þórhallsson prófessor.
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is