Flóttamaður eða hælisleitandi, skiptir það máli? Rétturinn til hælis á Íslandi

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands kynna opinn fund, mánudaginn 2. nóvember kl. 12:00 til 13:30 í Norræna húsinu:
 
Flóttamaður eða hælisleitandi, skiptir það máli? Rétturinn til hælis á Íslandi
 
Mikill fjöldi fólks hefur lagt leið sína til Evrópu á undanförnum misserum til þess að flýja stríðsátök og ofsóknir í heimalandi sínu. Málefni flóttafólks hafa verið ofarlega á baugi hér á landi og von er á kvótaflóttafólki hingað til lands innan tíðar. Innanríkisráðherra hefur lýst því yfir að hælisleitendur verði ekki sendir til baka til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands, þar sem ríkin eru ekki talin örugg. Á sama tíma berast fréttir af því að sýrlenskri fjölskyldu hafi verið synjað um efnislega meðferð á hælisumsókn sinni þar sem hún sé nú þegar með hæli í Grikklandi. Hvernig fær fólk hæli á Íslandi? Hvernig eru ákvarðanirnar teknar og á hverju byggja þær? 
 
Hrefna Dögg Gunnarsdóttir, lögmaður hjá Rétti - Aðalsteinsson & Partners, fjallar um hugtakið flóttamaður í alþjóðlegu samhengi og réttinn til hælis en hún hefur meðal annars sinnt rannsóknum fyrir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og innanríkisráðuneytið á sviði flóttamannaréttar. 
 
Skúli Á. Sigurðsson, verkefnisstjóri á hælissviði hjá Útlendingastofnun, gerir grein fyrir íslenska lagaumhverfinu og framkvæmd og starfsemi Útlendingastofnunar.
 
Pallborðsumræður: Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. 
Arndís A. K. Gunnarsdóttir, lögfræðingur hjá Rauða krossinum.
Guðbjörg Ottósdóttir, aðjúnkt við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. 
 
Fundarstjóri: Bogi Ágústsson, fréttamaður á Rúv.
 
Fundurinn fer fram á íslensku og eru allir velkomnir. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is