NÝTT NÁMSKEIÐ: Áfallastjórnun

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála kynnir námskeiðið:
 

NÝTT NÁMSKEIÐ: Áfallastjórnun 

Áfallastjórnun er lykilþáttur í stjórnun fyrirtækja og stofnana. Síauknar kröfur eru gerðar um hæfi stjórnenda til að takast á við áföll sem varða þá starfsemi sem þeir bera ábyrgð á. Áföll geta orsakast vegna ýmissa atvika, t.d. vegna náttúruhamfara, slysa, fjárhagshruns, pólitískra hneykslismála. Í slíkum kringumstæðum brennur á stjórnendum að taka ákvarðanir í aðstæðum sem markast af óvissu og tímapressu. Ákvarðanir sem geta haft afgerandi afleiðingar fyrir þeirra stofnun (og/eða samfélag) sem og þeirra eigin starfsferil. Sum áföll næst að leysa á skjótan máta meðan önnur stigmagnast og enda í öngstræti. Togstreitu sem fylgja áföllum er hægt að leysa á diplómatískan hátt eða hún endar með átökum; mannslíf bjargast eða tapast; stjórnmálaflokkar falla eða ná völdum; stjórnsýsla lamast eða eflist o.s.frv.
 
Áföll sem virða ekki landamæri hafa verið í brennidepli á þessari öld, áföll eins og t.d. fjármálahrunið sem hófst í Bandaríkjunum, gosið í Eyjafjallajökli sem lamaði farþegaflug um allan heim og átök um pólitík og mannúð í Evrópulöndum sem fylgdu flæði hundruð þúsunda innflytjenda.  Síðast en ekki síst er það glíman við COVID-19 sem stendur enn yfir. Slík áföll hafa tilhneigingu til magnast upp og jafnvel umbreytast sem veldur ruglingi í greiningu á orsökum og líklegum afleiðingum. Áfallastjórnunin endar oft á borðum margra stofnana og óljóst er hverjir eiga að taka af skarið – þ.e. leiða áfallastjórnunina. Í viðbrögðum við þess konar áföllum er engin ein ríkisstjórn megnug að takast á við orsakir vandans. Eins og sést í tilfelli COVID-19 þar sem engin ein ríkisstjórn getur ráðið niðurlögum veirunnar. Þær eru að reyna að vernda sína borgara en alþjóðasamfélagið verður að takast sameiginlega á að ráða niðurlögum hennar. Á námskeiðinu mun eðli áfalla sem virða ekki landamæri vera rætt sérstaklega.
 
Markhópur: Stjórnendur, millistjórnendur og sérfræðingar hjá opinberum stofnunum og hjá sveitarfélögum
 
Kennari og umsjón með námskeiðinu hefur Ásthildur Elva Bernharðsdóttir.
 
Þátttökugjald er 36.300,- kr. Námskeiðið mun að þessu sinni einungis fara fram í fjarnámi. Fjarnámið er sent út í beinu streymi og einnig verður upptaka af námskeiðinu aðgengileg tímabundið eftir að því lýkur. 
 

Þessu námskeiði hefur verið frestað um óákveðin tíma. Ný dagsetning verður auglýst síðar.

Markmið námskeiðsins er að auka skilning þátttakenda á þeim þáttum sem hafa áhrif á hvernig stjórnendur skynja og bregðast við áföllum og þeim ferlum sem liggja að baki árangursríkri áfallastjórnun.

Á námskeiðinu er fjallað um:
  • Hugsanlega áhættu: hugsanlegan undirbúning og/eða forvarnir
  • Forystu: leiðtoga, hópa og ráðgjafa
  • Átök og samvinnu í áföllum
  • Upplýsingastjórnun á áfallatímum
  • Áföll sem virða ekki landamæri
  • Áhrif kúltúrs á áfallastjórnun
  • Endurreisn og lærdóm
Ávinningur þinn:
  • Að öðlast dýpri skilning á lykilþáttum og ferlum sem móta ákvarðanatöku stjórnenda
  • Að þekkja hegðunarmunstur stjórnenda og stofnanaskipulag sem hefur sérstaklega sýnt sig vera árangursríkt (eða vanmegnugt) við að spá fyrir um, undirbúa, bregðast við, og læra af áföllum
  • Að auka skilning á mikilvægi þess að tekið sé tillit til hugsanlegra áfalla í stefnumótun stofnana. Hvernig huga þurfi að bæði viðbúnaði, forvörnum og endurreisn í áætlanagerð.
 
Ásthildur Elva Bernharðsdóttir er doktor í stjórnmálafræði og Cand. Oecon. í viðskiptafræði. Hún hefur sinnt rannsóknum og kennslu í áfallastjórnun hér á landi, í Svíþjóð, Bandaríkjunum og Japan.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is