Header Paragraph

300 fræðimenn ræða þéttbýlismyndun og borgarsamfélög

Image
EURA í Háskólabíó, mynd eftir Árna Torfason

Dagana 22.-24. júní koma 300 fræðimenn frá 46 löndum saman í Háskóla Íslands á þverfaglegri ráðstefnu EURA (European Urban Research Association) þar sem fjallað er um þéttbýlismyndun, borgarskipulag og byggðamál. Flutt eru hátt í 250 erindi í 55 málstofum þar sem saman kemur fræðafólk úr m.a. félagsfræði, stjórnmálafræði, skipulagsfræði og arkitektúr, auk starfsfólks sveitarfélaga o.fl. Fimmtudaginn 22. júní og föstudaginn 23. júní, kl. 9:00-11:00, eru sameiginlegir fundir Háskólabíó (Sal 1) sem opnir eru fyrir áhugasama.

Fimmtudaginn 22. júní, eftir að Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor í stjórnsýslufræðum við HÍ, og Filipe Teles, forseti EURA, bjóða gesti velkomna, ávarpa fundinn þau Matthew Carmona, prófessor í skipulagsfræðum við University College í London, og Tina Saaby, forstjóri Dansk Byplanlaboratorium. Carmona fjallar um ákvörðunartöku um skipulag í borgum og Saaby fjallar um hvernig borgir eru hannaðar fyrir fólk.

Föstudaginn 23. júní stýrir Þorsteinn Gunnarsson borgarritari fundi þar sem kynntar verða grænar áherslur Reykjavíkurborgar, samgöngusáttmálinn, regnbogaáherslur borgarinnar, íbúalýðræði o.fl.

Af hálfu Háskóla Íslands er ráðstefnan skipulögð af Stjórnmálafræðideild, Líf- og umhverfisfræðideild og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. Þá hefur Reykjavíkurborg komið að skipulagi ráðstefnunnar og styður við framkvæmd hennar, ásamt með innviðaráðuneyti og byggðaáætlun.

Heimasíða ráðstefnunnar er á slóðinni https://eura2023.is/.

Upplýsingar um EURA (European Urban Research Association) má nálgast á heimasíðu samtakanna á slóðinni https://eura.org/.