Rannsóknir og þjónusta

Rannsóknir

Rannsóknar- og þróunarverkefni stofnunarinnar eru fyrst og fremst unnin með kennurum Stjórnmálafræðideildar á viðkomandi sviði.

Gunnar Helgi Kristinsson prófessor og Ómar H. Kristmundsson prófessor hafa stýrt tveimur verkefnum, sem bæði eru afar umfangsmikil og taka til grundvallarþátta hins opinbera, þ.e. stjórnunar- og starfsumhverfis ríkisstofnana annars vegar og lýðræðisforma og félagsauðs í sveitarfélögum hins vegar. 

Á árunum 2014-2017 hélt Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála utan um Vald- og lýðræðisrannsókn Félagsvísindasviðs þar sem tókr þátt um 30 fræðimenn úr ólíkum deildum sviðsins, en rannsóknarstjóri þessa verkefnis var Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

 

Alþjóðlegt samstarf

Stofnunin hefur tekið þátt í samstarfsnetum háskóla einkum í Evrópu og á Norðurlöndum. 

Auk þess hefur verið framkvæmdaaðili nokkurra alþjóðlegra ráðstefna sem haldnar hafa verið hér á landi.

 

Námskeið, fyrirlestrar og fleira

Eitt af meginverkefnum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála er að skapa vettvang umræðu og fræðslu um viðfangsefni stjórnsýslu og stjórnmála fyrir fag- og áhugafólk um þessi efni á Íslandi. 

Fjöldi fyrirlestra, málþinga og námskeiða eru haldin á ári hverju í samstarfi við aðila utan sem innan Háskóla Íslands. 

Flestir viðburðir eru opnir, en einnig hefur stofnunin samkvæmt samkomulagi skipulagt framkvæmd lokaðra námskeiða og viðburða fyrir starfsfólk og stjórnendur tiltekinna stofnana eða félaga.

 

Stjórnsýsluúttektir

Stofnunin hefur tekið að sér gerð stjórnsýsluúttekta fyrir ríki og sveitarfélög, meðal annars á sérstökum verkefnum á vegum Reykjavíkurborgar og mennta- og menningarmálaráðuneytis.