Upptökur og hlaðvarp

Júní

Dagur stjórnmálafræðinnar: Áskoranir og hlutverk sveitarstjórna (2 tímar 19 mín)
Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála stóðu fyrir Degi stjórnmálafræðinnar fimmtudaginn 16. júní.

Umræðuefni fundarins voru áskoranir og hlutverk sveitarstjórna á Íslandi þar sem meðal annars var fjallað um hvaða máli kynjahlutfall í sveitarstjórnum skiptir, skipulagsmál, fjármál sveitarfélaga og lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, flutti erindið Kynjahlutfall í sveitarstjórnum og starfsumhverfi.
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, fór með erindið Skipulagsmál sveitarfélaga. Sigurður Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjallaði um fjármál sveitarfélaga, áskoranir og verkefni, sem og Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, sérfræðingur í lýðræðismálum hjá Reykjavíkurborg, flutti erindi sitt „Hvernig virkar lýðræðislegt sveitarfélag?“. Í kjölfarið fór fram verðlaunaafhending fyrir framúrskarandi lokaritgerðir í stjórnmálafræði sem var skilað árið 2021. Fundarstjóri var Baldvin Þór Bergsson, ritstjóri Kastljóss.

Maí

Hverju skiptir lögmæti fyrir góða stjórnarhætti? (1 tími 56 mín)
Lokaráðstefna rannsóknarverkefnisins „Hefur lögmæti áhrif?“ sem Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála hélt þriðjudaginn 24. maí. Í verkefninu var sjónum beint að hvort tengsl væru á milli skattaundanskota, spillingar og popúlisma.

Peter Esaiasson, prófessor við Stjórnmálafræðideild háskólans í Gautaborg, flutti fyrirlesturinn: Skiptir sigurinn öllu máli? Um mikilvægi þess að sanngirni sé gætt í meðferð stjórnsýslumála til að borgararnir líti á óvinsælar ákvarðanir stjórnvalda sem lögmætar. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, flutti jafnframt fyrirlestur sinn: Hvernig rannsóknir á lögmæti grafa undan nálgun sáttmálahyggju að ríkinu. Í kjölfarið fóru fram pallborðsumræður, en þátttakendur voru Carl Dahlström, prófessor við Stjórnmálafræðideild háskólans í Gautaborg, Gissur Ó. Erlingsson, prófessor við menningar- og félagsvísindadeild háskólans í Linköping, Monika Bauhr, prófessor við Stjórnmálafræðideild háskólans í Gautaborg, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands og Eva H. Önnudóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Fundarstjóri var Sjöfn Vilhelmsdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskólans.

Ólafur Þ. Harðarson sjötugur: Lýðræði, kjósendur og stjórnmálaflokkar (2 tímar 26 mín)
Málþing mánudaginn 23. maí í tilefni af sjötugsafmæli Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors emerítus á vegum Félags stjórnmálafræðinga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.

Á málþinginu fluttu nokkrir af nánum samstarfsmönnum Ólafs erindi honum til heiðurs þar sem meðal annars var fjallað um hans framlag til stjórnmálafræðinnar hvort sem það er í formi rannsókna, kennslu eða upplýstrar álitsgjafar til almennings um stjórnmál. Gunnar Helgi Kristinsson flutti „Erindi stjórnmálafræðinnar“, Eva H. Önnudóttir flutti ávarpið „Kjósendur eru ekki heimskir“, Bogi Ágústsson flutti erindi sitt „Að miðla og greina svo allir skilji“ og Guðmundur Heiðar Frímannsson fjallaði um „Vinur minn Ólafur Þ. Harðarson: Af kjósendum, heimspekingum og öðrum bjálfum“. Fundarstjóri var Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ.

Staða stjórnmálafræðinnar sem fræðigreinar í smáríkjum (ekki til upptaka)
Miðvikudaginn 11. maí fjölluðu Irmina Matonytė, prófessor í stjórnmálafræði við General Jonas Žemaitis Military Academy í Litháen, og Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, um stöðu stjórnmálafræðinnar í smáríkjum.

Rétturinn til menningar sem mannréttindi: Hávaði, kynbundið ofbeldi og „menningarvörnin" (ekki til upptaka)
Hádegisfundur þriðjudaginn 10. maí á vegum námsbrautar í þjóðfræði og safnafræði, Lagadeildar, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og Fulbright stofnunarinnar á Íslandi. Alison Dundes Renteln, prófessor í lögfræði, stjórnmálafræði og þjóðfræði við University of Southern California, fjallaði um réttinn til menningar sem mannréttindi og tókst á við hvernig draga eigi mörkin.

Sveitastjórnakosningar 2022 - staða, kosningabarátta og málefni (1 tími 2 mín)
Hádegisfundur föstudaginn 6. maí um sveitastjórnakosningarnar á vegum Félags stjórnmálafræðinga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.

Í tilefni sveitastjórnakosninganna sem framundan voru fóru þau Eva Marín Hlynsdóttir prófessor við HÍ og Grétar Þór Eyþórsson prófessor við HA yfir stöðuna í kosningabaráttunni, stöðu sveitastjórnafólks og fjalla um mikilvægi kosninganna og sveitastjórnamála.

Apríl

Hvernig aðstæður skipta máli í baráttu gegn spillingu: Dæmið um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Úkraínu (1 tími 8 mín)
Hádegisfundur mánudaginn 25. apríl á vegum Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála.

Robert Klitgaard, prófessor við Claremont Graduate University, fjallaði um hvernig alþjóðastofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nálgast iðulega viðfangsefni eins og eitt líkan hæfi öllum aðstæðum. Það getur virkað til að bregðast við þjóðhagslegum áföllum. Það dugar ekki til að glíma við spillingu eða önnur málefni þar sem staðbundin þekking og sköpun eru forsenda árangurs. Hvernig er hægt að gera þetta öðruvísi? Í þessu erindi er fjallað um nálgun sem reynd hefur verið á vettvangi og hún yfirfærð á hið magnþrungna dæmi um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Úkraínu. Skoðað er hversu vel þessi nálgun á við önnur lönd og stefnumótun á öðrum sviðum.

Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland (7 tímar, 5 mín)
Ráðstefna miðvikudaginn 20. apríl á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Norræna hússins og utanríkisráðuneytisins í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála um alþjóðamálin og allar þær áskoranir sem við okkur blasa í alþjóðasamfélaginu í dag.

Mars

Stríð, mannréttindi og lýðræði: Hvaða máli skiptir alþjóðasamvinna? (1 tími 4 mín)
Hádegisfundur miðvikudaginn 16. mars á vegum Félags stjórnmálafræðinga, Alþjóðamálastofnunar HÍ og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.

Innrás Rússa í Úkraínu vekur upp spurningar um hlutverk lýðræðisríkja í að tryggja að staðinn sé vörður um grundvallargildi lýðræðis sem eru meðal annars þau að borgaraleg réttindi og mannréttindi eru tryggð og varin bæði gagnvart utanaðkomandi ógnum sem og ógnum innanlands. Jafnframt draga átökin fram mikilvægi alþjóðasamvinnu og samtakamáttar þegar kemur að því að standa vörð um grundvallargildi lýðræðis og mannréttindi. Þátttakendur í pallborði voru Bjarni Bragi Kjartansson, alþjóðastjórnmálafræðingur, Kári Hólmar Ragnarsson, lektor við lagadeild HÍ, Anna Lúðvíksdóttir, framkvæmdarstjóri Amnesty á Íslandi og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdarstjóri UNICEF á Íslandi. Þau ræddu þessi mikilvægu atriði bæði út frá sjónarhóli samvinnu í öryggis- og varnarmálum, hvernig mannréttindi eru tryggð og hverjir standa vörð um mannréttindi. Fundarstjóri var Sigríður Víðis Jónsdóttir.

Innrásin í Úkraínu (1 tími 16 mín)
Opinn fundur miðvikudaginn 2. mars á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og Félags stjórnmálafræðinga um innrás Rússlands í Úkraínu og þær afleiðingar sem innrásin hefur fyrir öryggi í Evrópu.

Flemming Splidsboel Hansen, sérfræðingur hjá dönsku alþjóðamálastofnuninni (DIIS) með áherslu á Rússland, Úkraínu og Hvíta-Rússland, flutti erindi. Í pallborði sátu Jón Ólafsson, prófessor í menningarfræði, Rósa Magnúsdóttir, prófessor í sagnfræði, Guðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir, doktorsnemi, Andrei Menshenin, blaðamaður, auk Baldurs Þórhallssonar, prófessors í stjórnmálafræði.

Febrúar

Eru fjölmiðlastyrkir forsenda fjölbreyttrar og sjálfstæðrar fjölmiðlunar? (2 tímar 23 mín)
Málþing mánudaginn 7. febrúar um opinbera styrki til einkarekinna fjölmiðla á vegum Rannsóknaseturs um fjölmiðlun og boðskipti við Háskóla Íslands og Blaðamannafélags Íslands í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands opnaði fundinn og Lilja Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp. Ida Willig, prófessor í fjölmiðlafræðum Hróarskelduháskóla, fjallaði um fjölmiðlastyrki í Danmörku og Valgerður A. Jóhansdóttir, lektor og umsjónarmaður með meistarnámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, greindi frá niðurstöðum úr könnun á meðal íslenskra blaða- og fréttamanna til starfsins. Þátttakendur í pallborðsumræðum voru Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Þórhallur Gunnarsson, framkæmdastjóri hjá Sýn og Valgerður A. Jóhannsdóttir, lektor og umsjónarmaður með meistarnámi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.

Nóvember

Uppgjörið: Íslensk stjórnmál eru skrambi góð! (1 tími 12 mín)
Opinn fundur Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála þriðjudaginn 16. nóvember kl. 16 - 17 í Odda 101. Ragnar Hjálmarsson, doktor í stjórnarháttum og ráðgjafi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, greinir frá þeim umbreytingarferlum (e. transitional justice mechanisms) sem hægt er að beita eftir efnahagsáföll út frá eigin doktorsritgerð og fjölþjóðlegri rannsókn sem ber saman viðbrögð sex ríkja við fjármálakreppunni. 

September

Dagur stjórnmálafræðinnar - Kosningar í breyttu landslagi (1 tími 31 mín)
Opinn fundur í HÍ föstudaginn 3. september á vegum Félags stjórnmálafræðinga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála þar sem fjórir fræðimenn við Stjórnmálafræðideild HÍ – Ólafur Þ. Harðarson, Hulda Þórisdóttir, Eva H. Önnudóttir og Jón Gunnar Ottósson – fjölluðu m.a. um samræmi í málefnaáherslum kjósenda og frambjóðenda stjórnmálaflokka, misræmi í kosningakerfinu, kosningaþátttöku og miðlun upplýsinga og fjölmiðlanotkun í kosningabaráttu. Þá voru veitt verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir í stjórnmálafræði sem skilað var árið 2020. 
 
Kosningar og breytingar í íslenskum stjórnmálum eftir bankahrun (1 tími 31 mín) - Bókarkynning og málstofa
Opinn fundur í HÍ (Lögbergi) fimmtudaginn 16. september á vegum Íslensku kosningarannsóknarinnar og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. Kynnt var bókin Electoral Politics in Crisis After the Great Recession - Change, Fluctuations and Stability in Iceland, sem nýkomin er út hjá Routledge. Eva H. Önnudóttir kynnti, Gunnar Helgi Kristinsson og Sjöfn Vilhelmsdóttir veittu álit og Bogi Ágústsson stýrði fundi.

Ágúst

NoPSA, norræn ráðstefna stjórnmálafræðinga (ekki til upptaka)
Norræn ráðstefna stjórnmálafræðinga sem haldin er þriðja hvert ár, að þessu sinni að mestu með fjarfundaformi frá Háskóla Íslands dagana 10.-13. ágúst. Ráðstefnunni var frestað sumarið 2020 vegna COVID-19. Aðstandendur ráðstefnunnar hér á landi voru Félag stjórnmálafræðinga, Háskólinn á Akureyri og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. 
 
Opinn fyrirlestur um hægri öfgaflokka: The Far Right Today (1tími 9mín)
Opinn fyrirlestur 9. ágúst kl. 12:00-13:00, í Öskju N-132, á vegum Félags stjórnmálafræðinga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála þar sem Cas Mudde, prófessor við Háskólann í Georgíu og höfundur bókarinnar The Far Right Today, fjallaði um fjórðu bylgju uppgangs hægri öfgaflokka í lýðræðisríkjum heims, hugmyndafræði hægri öfgaflokka og viðbrögð við þeim. 
 
Ánægja ferðamanna í Landmannalaugum - málstofa og útgáfuboð vegna útgáfu 1. tbl. 18. árgangs TVE (ekki til upptaka)
Málstofa og útgáfuboð TVE - Tímarits um viðskipti og efnahagsmál í Norræna húsinu 25. ágúst kl. 12:00-13:00. Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, kynnti grein sína um langtímarannsókn á ánægju ferðamanna í Landmannalaugum. Álit gáfu Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri SAF og Jón Páll Baldvinsson formaður FETAR - sérsamtaka ferðaþjónustufyrirtækja í hálendisferðum.  

Júní

„Konur í hlutverki forseta og forsætisráðherra: Dyggðahringur kvenleiðtoga?“ (58 mín)
Opinn fundur Stofunar stjórnsýslufræða og stjórnmála fimmtudaginn 3. júní kl. 12:00 - 13:00 á Zoom, í samstarfi við MARK - Miðstöð margbreytileika- og kynjarannsókna. Farida Jalalzai, prófessor í stjórnmálafræði við Virginia Tech í Bandaríkjunumn flutti ofangreindan fyrirlestur. Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, brást við erindinu og fram fóru opnar umræður. Fundarstjóri var Þorgerður J. Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við HÍ.  
 
Pólitíkin um bóluefnið (52 mín) 
Opinn fundur á vegum Félags stjórnmálafræðinga og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála föstudaginn 11. júní kl. 12:00 - 13:00 á Zoom. Birna Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og Héðinn Halldórsson ráðgjafi í upplýsingamálum á Evrópuskrifstofu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar fluttu erindi. Fundi stýrði Sigurður Ólafsson, stjórnarmaður í Félagi stjórnmálafræðinga. 
 
Alþjóðasamvinna á krossgötum: Hvert stefnir Ísland? (5 tímar 15 mín) 
Ráðstefna Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, Norræna hússins og utanríkisráðuneytisins, í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Vestnorræna ráðið, haldin í Norræna húsinu miðvikudaginn 16. júní. 

Apríl

Ný lög um vernd uppljóstrara (50 mín) 
Opinn fundur á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, í samstarfi við Félag stjórnmálafræðinga. Fundurinn var haldinn 15. apríl kl. 12:30 - 13:15 í beinu streymi á Zoom. 

Febrúar 
 
Hversu langt nær málfrelsið? – Vald samfélagsmiðla til ritskoðunar (65 mín)
Opinn fundur á vegum Félags stjórnmálafræðinga, Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands þar sem rætt var um tjáningarfrelsi og ritskoðun í þeim nýja raunveruleika sem samfélagsmiðlar hafa skapað. Fundurinn var haldinn mánudaginn 1. febrúar kl. 16:00-17:00 og var streymt í gegnum Zoom. 

Upptökur frá viðburðum 2020

Upptökur frá viðburðum 2019

Upptökur frá viðburðum 2018

Upptökur frá eldri viðburðum