Fimmtudaginn 6. nóvember stóð Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála fyrir opnum morgunverðarfundi á Grand Hótel Reykjavík, í samstarfi við Félag forstöðumanna ríkisstofnana. 

Á fundinum fjallaði Jón Gunnar Ólafsson, lektor við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, með almennum hætti um samskipti í breyttum heimi og um aukna skautun og hörku í umræðu á netinu, meðal annars í tengslum við stjórnmál.

Þá kynnti Þóra Bjarnadóttir, lögfræðingur hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og MPA í opinberri stjórnsýslu, niðurstöður rannsóknar sinnar á upplifun opinberra starfsmanna af óvæginni umræðu og áreitni í þeirra garð, og tillögur þeirra að úrbótum. Rannsóknin byggði meðal annars á viðtölum við opinbera starfsmenn sem upplifðu margir varnarleysi gagnvart hörku í þeirra garð, þar sem þeir eru bundnir þagnarskyldu og geta ekki leiðrétt rangfærslur á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum. Nokkrir höfðu lent í grófum tilfellum óvæginnar umræðu og áreitni, allt frá myndbirtingum á netinu til hótana og jafnvel líkamlegs ofbeldis. Þóra fjallaði jafnframt um tillögur viðmælendanna til úrbóta, en þeir töldu kerfið vera úrræðalaust og að þeir fengju ekki viðeigandi aðstoð í krefjandi aðstæðum.

Fjallað er um rannsókn Þóru í grein hennar og Jóns Gunnars sem birtist í 2. tbl. 20. árg. tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla í desember 2024. Greinina má nálgast hér.

Áhugaverðar umræður – eftirspurn eftir samræmdri nálgun
Fundinn sat fjöldi forstjóra ríkisstofnana auk annarra stjórnenda og sérfræðinga hjá stofnunum, ráðuneytum, sveitarfélögum o.fl. Mörg þeirra tóku þátt í umræðum í kjölfar erindanna þar sem Jón Gunnar og Þóra sátu jafnframt fyrir svörum. Margt fróðlegt kom fram í umræðunum og í máli margra kom fram eftirspurn eftir einhvers konar miðlægri stefnumörkun eða samræmdri nálgun um hvernig opinberir aðilar eigi að bregðast við og styðja við sitt starfsfólk ef það lendir í óvæginni umræðu, áreitni eða jafnvel ofbeldi eða ofbeldishótunum í tengslum við sín störf.

Grand Hótel, morgunverðarfundur
Þóra á Grand Hótel
Jón Gunnar og Þóra á Grand Hótel
Deila