Um stofnunina

Stofnunarár 2002

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála var stofnuð árið 2002 og var fyrsta heila starfsár hennar 2003.

Hún er rannsóknar- og þjónustustofnun stjórnmálafræðideildar og hennar samstarfsaðila.

Stofnunin starfar náið með stofnunum og félagasamtökum, innlendum sem erlendum eftir því sem tilefni gefast.

Stofnun stjórnsýslufræða leitast við að ná markmiðum sínum annars vegar á vettvangi þjóðlífs og hins vegar á vettvangi Háskóla Íslands.

Image
Gimli glerbygging

Vettvangur þjóðlífs

Á vettvangi þjóðlífs er áhersla lögð á að

  • standa fyrir innlendum sem alþjóðlegum ráðstefnum og námskeiðahaldi
  • efla umræðu og rannsóknir á sviði, stjórnmála, stjórnsýslu og opinberrar stefnumótunar
  • gefa út og kynna niðurstöður rannsókna
  • leita nýrra leiða til að afla fjár til verkefna stofnunarinnar
  • efla tengsl fræðasamfélagsins í Háskóla Íslands við stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga
Image
""

Vettvangur Háskólans

Á vettvangi Háskólans leggur stofnunin áherslu á

  • hagnýt námskeið og rannsóknir á sviði stjórnsýslu- og stjórnmálafræða innan stjórnmálafræðideildar
  • stuðla að þverfræðilegri samvinnu innan skólans
  • veita stjórnmálafræðideild og öðrum aðilum innan sem utan skólans þjónustu á sviði fræðanna
Image
Aðalbygging Hí í sumarlegu umhverfi

Stjórnsýsla

Viðmiðanir við undirbúning og framkvæmd opinberra funda svo sem ráðstefna og málþinga á vegum Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. 

Samþykktar á stjórnarfundi SSS 15. ágúst 2012

Skv. reglum nr. 546/2010 um Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands skal stofnunin standa fyrir ráðstefnum og málþingum á sviði stjórnsýslu og stjórnmála og miðlun upplýsinga þar um. Með því er ætlunin að skapa lifandi vettvang umræðna um stjórnmál og stjórnsýslu og efla tengsl milli fræðasamfélags Háskóla Íslands og forystumanna í þjóðlífi (stjórnmálamanna, stjórnsýslunnar, forystumanna atvinnulífs og hagsmunasamtaka). Með þessu er einnig ætlunin að stuðla að þverfaglegri samvinnu innan Háskóla Íslands á sviði stjórnsýslu og stjórnmála.

Samstarf Stofnunarinnar vegna opinberra funda er með þrennum hætti

1. Samstarf sem skilgreint er í samstarfsamningi við aðila. Í samstarfssamningi er kveðið á um sameiginleg verkefni svo sem opinbera fundi. Í samningi er einnig kveðið á um meginviðmiðanir um kostnað vegna fundanna og vinnu við undirbúning. Val á fundarefni og fyrirlesurum er sameiginlegt viðfangsefni stofnunarinnar og viðkomandi samstarfsaðila.

2. Samstarf við aðila innan sem utan háskólans sem er bundið tilteknum viðburðum. Stofnunin starfar með aðilum að einstökum viðburðum, opinberum fundum, námskeiðum, rannsóknar og þróunarverkefnum á sviði opinberrar stjórnsýslu og stjórnmála. Við undirbúning á slíku samstarfi skal samráð haft um fundardagskrá og val á einstökum fyrirlesurum.

Vegna samstarfs undir lið 1 og 2 gætir stofnunin þess að viðfangsefni hinna opinberu funda falli að hlutverki hennar. Einnig að við mótun dagskrár og val á fyrirlesurum sé gætt að ólík sjónarmið séu dregin fram á því viðfangsefni sem er til umfjöllunar eftir því sem við á. Jafnframt séu skoðanaskipti frjáls og málefnaleg og skipulag og framsetning dagskrár til þess fallin að tryggja upplýsta og gagnrýna umræðu. Nafn stofnunar kemur fram á auglýsingum og öðrum fundargögnum.

3. Þjónusta við aðila innan háskólans við undirbúning og framkvæmd opinberra viðburða. Stofnunin tekur að sér að undirbúa fundi með kennurum stjórnmálafræðideildar og öðrum þeim sem starfa að kennslu eða rannsóknum á verkefnasviði stofnunarinnar.

Forstöðumaður stofnunar sinnir ofangreindum verkefnum. Hann upplýsir formann um verkefni sem eru í undirbúningi og fær samþykkt hans fyrir samstarfi eftir þörfum. Ef álitamál koma upp um þátttöku stofnunarinnar í opinberum fundum upplýsir formaður aðra stjórnarmenn um málið og fær afstöðu þeirra. Í lok árs og að vori tekur forstöðumaður saman yfirlit yfir þá opinberu viðburði sem
stofnunin hefur komið að á misserinu og kynnir á stjórnarfundum.