Harris eða Trump: Vesturlönd á krossgötum?
Félag stjórnmálafræðinga, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við HÍ og Alþjóðamálastofnun HÍ standa fyrir pallborði um bandarísku forsetakosningarnar þar sem einvalalið sérfræðinga mun rýna í stöðu kosningabaráttunnar, skoðanakannanir, fjölmiðlaumfjöllun og framtíðarsýn frambjóðenda.
Um þessar mundir fylgjast væntanlega mörg með kosningabaráttunni vestanhafs, sem hefur verið mjög hörð og um margt óvenjuleg. Fyrst kepptust fyrrverandi og núverandi forsetar Bandaríkjanna, Donald Trump og Joe Biden, um forsetastólinn en eftir miklar og óvæntar vendingar innan Demókrataflokksins dró Joe Biden framboð sitt til baka og tók varaforseti hans, Kamala Harris, við af honum sem frambjóðandi Demókrata. Á sama tíma er mikil ólga í alþjóðasamfélaginu og má því segja að heimsbyggðin fylgist með úrslitum þessara kosninga sem aldrei fyrr, ekki síst vegna þess að Kamala Harris og Donald Trump eru um margt ólíkir frambjóðendur sem boða ólíka framtíðarsýn.
Í þessu pallborði munum við rýna í stöðu kosningabaráttunnar eins og hún kemur okkur fyrir sjónir tæpri viku fyrir kjördag, ræða áhrifamátt fjölmiðla og samfélagsmiðla við að móta skoðanir kjósenda, og velta fyrir okkur mögulegum áhrifum úrslitanna á bæði Bandaríkin sjálf sem og heimsbyggðina alla.
Þátttakendur í pallborði eru:
- Birta Björnsdóttir, yfirmaður erlendra frétta á fréttastofu RÚV
- Erlingur Erlingsson, fyrrv. staðgengill sendiherra í Washington, D.C.
- Hafsteinn B. Einarsson, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild HÍ
- Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ
Umræðustjóri verður Svanhildur Þorvaldsdóttir, formaður Félags stjórnmálafræðinga og dósent við Stjórnmálafræðideild HÍ.
Fundurinn er opinn öllum og mun fara fram á íslensku. Aðgangur er ókeypis.