Hótanir í garð starfsfólks algengari - fjölsóttur fundur um öryggismál stofnana
Ýmislegt fróðlegt kom fram á fjölsóttum morgunverðarfundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um öryggismál stofnana, sem haldinn var í samstarfi við Félag forstöðumanna ríkisstofnana (FFR) á Grand Hótel fimmtudaginn 16. nóvember. Helga Þórisdóttir, formaður FFR, sagði frá því að forstöðumenn ýmissa ríkisstofnana finna í vaxandi mæli fyrir aukningu í hótunum og ógnunum í garð starfsfólks, einkum í gegnum samfélagsmiðla.
Vöxtur í hótunum og meiðyrðum á netinu
Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, fjallaði um þróun netglæpa á Íslandi og tengsl þeirra við nethegðun Íslendinga, en í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur hann fylgst með þessu tvennu frá árinu 2016. Í þeim mælingum má greina talsverðan vöxt þegar kemur að hótunum og meiðyrðum á netinu, en einnig ákveðin tengsl milli nethegðunar fólks og hversu líklegt það er til að verða fyrir netglæpum. Hægt er að sjá erindi Helga hér.
Ábendingar til Ríkislögreglustjóra og leiðbeiningar þaðan
Í máli Runólfs Þórhallssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá greiningardeild Ríkislögreglustjóra, kom m.a. fram að deildin veitir stofnunum og fyrirtækjum ýmiss konar ráðgjöf þegar kemur að viðbrögðum við hótunum og ógnunum í garð starfsfólks. Von er á almennum leiðbeiningum í þeim efnum frá embættinu en jafnframt hvatti Runólfur stofnanir og fyrirtæki til að tilkynna um slík atvik í netfangið info@rls.is, en embættið reynir að halda utan um tölfræði hvað þessi mál varðar.