Nýtt námskeið: Brot í starfi og utan þess: Hvernig á að (og má) bregðast við á vinnustað?

Image
HVENÆR
14. nóvember 2024
09:00 til 12:30
HVAR
Rafrænt
NÁNAR

Smelltu hér til að skrá þig á námskeiðið

Vekjum athygli á að námskeiðið fer einungis fram í fjarnámi. Fjarnámið er sent út í beinu streymi og einnig verður upptaka af námskeiðinu aðgengileg eftir að því lýkur.

- Fimmtudagurinn 14. nóvember 2024, kl. 9:00-12:30. 

- Þátttökugjald: kr. 24.900-

Umsjónarmaður og fyrirlesari:

- Kjartan Bjarni Björgvinsson, dómari við Landsrétt.
 

Um námskeiðið:
Námskeiðinu er ætlað að vera leiðsögn um völundarhús íslenskra laga og reglna um viðbrögð á vinnustað við ætlaðri refsiverðri háttsemi starfsfólks. Fjallað er um helstu lagalegu skyldur vinnuveitanda þegar frásögn berst um alvarlega og ámælisverða hegðun starfsmanns á borð við áreitni og ofbeldi gagnvart öðru starfsfólki. Eins verður fjallað um að hvaða marki vinnuveitandi getur brugðist við frásögnum um slíka háttsemi utan vinnu. Í námskeiðinu verður vikið að ólíkri réttarstöðu vinnuveitenda og starfsfólks á almennum og opinberum vinnumarkaði að þessu leyti og jafnframt að hvaða leyti reglur eru sameiginlegar. Farið verður yfir helstu réttindi starfsfólks með hliðsjón af reglum vinnuréttar og íslenskri löggjöf, bæði um að njóta öryggis á vinnustað gagnvart hegðun annarra og réttlátrar málsmeðferðar ef ásökun beinist að viðkomandi. Leitast verður við að styðja umfjöllunina raunhæfum dæmum og fjallað verður um nýlegar niðurstöður dómstóla að þessu leyti. 
 
Markmið:
Að stjórnendur, mannauðsráðgjafar, starfsfólk og aðilar sem koma að ráðgjöf í starfsmannamálum fái yfirsýn um þær lögmætu aðferðir sem í boði eru til að bregðast við frásögnum um refsiverða háttsemi þannig að gætt sé bæði hagsmuna starfsfólks og vinnustaðarins.
 
Helstu spurningar:
- Úrræði vinnuveitenda gagnvart refsiverðum brotum: eru þau ólík eftir hvort um er að ræða áreitni, ofbeldi eða annars konar brot á borð við fjársvik eða hatursorðræðu? 
- Hvernig er hægt að finna eðlilegt jafnvægi á milli réttar starfsfólks á að verða ekki fyrir ofbeldi og þarfarinnar á réttlátri málsmeðferð þegar frásögn af ofbeldi berst? 
- Hvaða sérstöku reglur gilda um rétt opinberra starfsmanna samkvæmt lögum og kjarasamningum? 
- Hver er ábyrgð vinnuveitenda á háttsemi starfsfólks? 
 
Um fyrirlesara:
Kjartan Bjarni Björgvinsson er dómari við Landsrétt. Kjartan er með meistarapróf í lögum frá London School of Economics and Political Science og hefur áður meðal annars starfað sem héraðsdómari, settur umboðsmaður Alþingis og dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Kjartan var árið 2022 formaður nefndar ÍSÍ um úttekt á viðbrögðum og málsmeðferð KSÍ vegna frásagna um kynferðisofbeldi.