Útgáfa tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla

Image
Stjórnmál og stjórnsýsla
HVENÆR
23. júní 2022
16:30 til 17:30
HVAR
Oddi
101
NÁNAR

Útgáfuboð og fyrirlestur í tilefni af útkomu 1. tbl. 18. árg. tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla

Júníhefti tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla verður gefið út í vefútgáfu 23. júní 2022.

Útgáfuboð og fyrirlestur í tilefni af útkomu 1. tbl. 18. árg. tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla (www.irpa.is) verður haldið samdægurs, fimmtudaginn 23. júní, kl. 16:30 í stofu Odda 101 í Háskóla Íslands.

Við opnunina kynnir Agnar Freyr Helgason, dósent við Stjórnmálafræðideild HÍ, grein þeirra Ólafs Þ. Harðarsonar, Jóns Gunnars Ólafssonar, Evu H. Önnudóttur og Huldu Þórisdóttur, sem er meðal efnis í tímaritinu. Fyrirspurnir og umræður verða að loknu erindi Agnars, og síðan verður boðið upp á léttar veitingar á annari hæð Odda. 

Grein Agnars, Ólafs, Jóns Gunnars, Evu Heiðu og Huldu ber titilinn Electoral politics after the crisis: Change, fluctuations and stability in the 2021 Althingi Election.

Í greininni eru Alþingiskosningarnar 2021 greindar út frá nokkrum lykilvísum fengnum úr kjósendakönnun Íslensku kosningarannsóknarinnar (ÍSKOS). Rannsóknarspurningin sem leitast er við að svara er hvort íslensk stjórnmál hafi haldið áfram að þróast í átt til fyrra horfs og að hve miklu leyti þau eru varanlega breytt eftir pólitískar og efnahagslegar sviptingar sem urðu í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Kosningabaráttan og kosningarnar 2021 fóru fram í skugga COVID-19 heimsfaraldursins þar sem ríkisstjórnin naut mikils þverpólitísks stuðnings fyrir það hvernig hún tók á faraldrinum og efnahagslegum afleiðingum hans. Samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn juku fylgi sitt um 1,5 prósentustig í kosningunum. Gögn ÍSKOS sýna að 45% kjósenda kusu annan flokk árið 2021 samanborið við 2017, sem er aðeins minna flokkaflakk en í síðustu kosningum. Á málefnavíddunum félagshyggja-markaðshyggja og innilokun-opingátt, má sjá verulega sveiflu miðað við þrjár fyrri kosningar í átt að meiri markaðshyggju og opingátt. Traust til stjórnmálamanna og ánægja með hvernig lýðræðið virkar hélt áfram að aukast eftir mikla dýfu árið 2009. Loks sjáum við að yngstu aldurshóparnir eru áfram ólíklegri en þeir eldri til að kjósa, eyða minni tíma í að fylgjast með fréttum af kosningabaráttunni og gera það þá frekar á samfélagsmiðlum. Höfundar komust að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnmál virðast hafa náð jafnvægi eftir kreppuna, en þetta nýja jafnvægi einkennist þó af sundurleitara flokkakerfi en áður.

Greinarnar í tímaritinu fjalla um fjölbreytt efni íslenskrar stjórnsýslu og stjórnmála og eftirfarandi ritrýndar greinar eru birtar að þessu sinni:

1. Electoral politics after the crisis: Change, fluctuations and stability in the 2021 Althingi Election. Höfundar: Agnar Freyr Helgason, Ólafur Þ. Harðarsonar, Jón Gunnar Ólafsson, Eva H. Önnudóttir og Hulda Þórisdóttir.

2. Ákvörðun þolenda ofbeldis að tilkynna brot til lögreglu. Höfundur: Margrét Valdimarsdóttir.

3. Analyzing the Public-Private Sector Wage Gap Using Difference-in-Differences. Höfundar: Katrín Ólafsdóttir og Vilhjálmur Forberg Ólafsson.

4. Kynjaslagsíða í fréttum: Um fjölbreytni og lýðræðishlutverk fjölmiðla. Höfundar: Valgerður Jóhannsdóttir og Finnborg Salome Steinþórsdóttir.

5. Rannsókn á tengslum kynferðis og aldurs dómenda og lögmanna í héraði við úrslit dómsmála. Höfundar: Valgerður Sólnes, Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, Benedikt Bogason og Kjartan Vífill Iversen.

6. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi: Sjálfræðisréttur skjólstæðinga, vanlíðan vegna frávika og traust innan heilbrigðisþjónustu. Höfundar: Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Auður Hermannsdóttir.

7. Akademískt frelsi, ábyrgð og hömlur: Sjónarmið háskólakennara á Íslandi. Höfundar: Guðmundur Heiðar Frímannsson, Anna Ólafsdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Sigurður Kristinsson og Valgerður Bjarnadóttir.

Ritstjóri Stjórnmála & stjórnsýslu er Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við stjórnmálafræði-deild Háskóla Íslands, en auk hans sitja í ritstjórn þau: Agnar Freyr Helgason, Eva H. Önnudóttir, Eva Marín Hlynsdóttir og Lára Hrönn Hlynsdóttir. Útgefandi tímaritsins er Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Öll velkomin.