Header Paragraph

Málþing 23. mars: Embættismaðurinn í nútímasamfélagi

Image
stjórnarráðið

Embættismaðurinn í nútímasamfélagi: Verkfæri í þágu lýðræðis og varðmaður góðra stjórnhátta

Forsætisráðuneytið í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála stendur fyrir málþingi um samspil stjórnmálamanna og embættismanna á tímum stöðugra umbreytinga, aukinna krafna og alþjóðlegra áskorana. Tilefnið er að forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem ætlað er að fjalla um hlutverk og starfsskilyrði embættismanna með hliðsjón af þróun í nágrannalöndunum. Embættismenn gegna mikilvægu hlutverki í stjórnkerfinu, þeim er ætlað að tryggja framkvæmd stjórnarstefnunnar hverju sinni en um leið að standa vörð um góða stjórnarhætti og lögmæti, sem getur kallað á flókið samspil við ráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpar málþingið í upphafi og að því loknu mun Bryndís Hlöðversdóttir ráðuneytisstjóri kynna efnistök nýskipaðrar nefndar um efnið.

Þrír erlendir gestir munu halda lykilerindi. Bo Smith, fyrrum ráðuneytisstjóri, fjallar um sjö meginskyldur embættismanna í Danmörku en Bo stýrði úttektarnefnd um samspil embættismanna og stjórnmálamanna árið 2015 og mun verða starfshópnum til ráðgjafar. Karsten Dybvad, sem jafnframt er fyrrum ráðuneytisstjóri, fjallar um tillögur vinnuhóps sem hann leiddi og kynntar voru fyrr í þessum mánuði en þar er fjallað um viðfangsefnið í ljósi nýlegra mála sem skekið hafa danskt samfélag, s.s. minkamálið og landsdómsmál gegn Inger Støjberg.

Loks mun Simon McDonald fjalla um reynslu sína sem háttsettur embættismaður í breska stjórnkerfinu. Hann starfaði í hartnær 40 ár í utanríkisráðuneytinu, m.a. sem ráðuneytisstjóri, og gaf á síðasta ári út bókina Leadership: Lessons from a Life in Diplomacy.

Málþingið, sem fer fram á ensku, verður haldið fimmtudaginn 23. mars nk. á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík.

Aðgangur er ókeypis en fólk er beðið að skrá sig hér

Dagskrá málþingsins má finna hér