Ráðstefna um umhverfismál 25. ágúst nk.
Ráðstefnan Umhverfisvá, sjálfbærni og umhverfisvitund verður haldin 25. ágúst í Odda 101, Háskóla Íslands.
Loftslagsvá, hamfarahlýnun, sjálfbærni og kolefnaspor eru hugtök sem heyrast æ oftar í opinberri umræðu þegar umhverfismál ber á góma. Flestum ber saman um að bregðast þurfi við umhverfisvá, en greinir á um hver viðbrögðin eigi að vera. Umhverfismál eru af mörgum talin eitt mikilvægasta úrlausnarefni samfélagsins og snertir nær allar hliðar mannlífs, hvort sem um er að ræða atvinnulíf, heimili eða aðra þætti samfélagsins. Í þessari opnu dagskrá verður fjallað um nýjar rannsóknir á sviði félagsvísinda á rannsóknum á umhverfisvitund Íslendinga, viðbrögðum stjórnvalda og horft til framtíðar.
Flutt verða fjögur erindi (nánari lýsingu má lesa hér neðar):
Afleiðingar aðgerða í loftlagsmálum: Viðhorf Íslendinga eftir þjóðfélagsstöðu og í alþjóðlegu samhengi
Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við HÍ.
Hernaðurinn gegn hnettinum
Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Höfn.
Aðlögun að loftlagsbreytingum í litlum og afskekktum samfélögum sem búa við snjóflóðahættu á Íslandi
Jóhanna Gísladóttir, doktor í umhverfis- og auðlindafræði.
Samfélags- og loftslagsvá? Hvers konar traust hefur áhrif á stuðning einstaklinga við mismunandi stefnur stjórnvalda í loftslagsmálum?
Sóllilja Bjarnadóttir, doktorsnemi í félagsfræði við HÍ.
Fundarstjóri verður Bjargey Anna Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri framhaldsnáms í Umhverfis- og auðlindafræði.
Að lokinni dagskrá verður boðið upp á léttar veitingar á kaffistofunni á 2.hæð í Odda. Fylgist með á Facebook viðburði ráðstefnunnar.
Öll velkomin.
Nánari lýsingar á erindum:
Afleiðingar aðgerða í loftlagsmálum: Viðhorf Íslendinga eftir þjóðfélagsstöðu og í alþjóðlegu samhengi
Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði við HÍ.
Loftlagsbreytingar eru ein helsta ógn sem samfélög heimsins standa frammi fyrir. Fræðafólk, almenningur og stefnumótendur hafa rætt mismunandi aðgerðir en áherslan hefur oft verið utan Félagsvísindanna. Engu að síður er ljóst að loftlagsbreytingar og þær aðgerðir sem gripið er til hafa margvíslegar, og oft ófyrirsjáanlegar, afleiðingar fyrir einstaklinga, hópa og samfélög. Í þessum fyrirlestri er sjónum beint að viðhorfum Íslendinga til aðgerða í loftlagsmálum og hvort þeir telji að áhrif aðgerða verði neikvæð eða jákvæð. Þessi viðhorf eru greind eftir þjóðfélagshópum sem veitir innsýn inn í hvort ákveðnir hópar samfélagsins upplifi sig sem sérstaklega viðkvæma á tímum loftlagsbreytinga. Að auki verða viðhorf Íslendinga sett í alþjóðleg samhengi. Fyrirlesturinn byggir á gögnum frá Alþjóðlegu Viðhorfakönnuninni (International Social Survey Programme) en árið 2020 var áhersla hennar að skilja viðhorf almennings til umhverfismála.
Hernaðurinn gegn hnettinum
Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Höfn.
Hnattrænar loftslagsbreytingar og sú margvíslega náttúruvá sem þeim fylgir er viðfangsefni af áður óþekktri stærðargráðu. Hamfararhlýnun lætur einfaldlega fátt - ef nokkuð - ósnortið á Jörðinni. Sum þessara áhrifa eru þegar vel sýnileg en önnur – og sennilega mun alvarlegri – bíða okkar handan við hornið. Á Íslandi hefur vitund um loftlagsbreytingar stóraukist á undanförnum árum en opinber umræða hérlendis er samt sem áður á ýmsan hátt sérkennileg. Þannig keppa margir og mjög ólíkir hópar nú um athygli og traust almennings varðandi alls konar „lausnir“ á loftslagsvandanum. Í erindinu verður fjallað um þessar meintu lausnir og trúverðugleika þeirra. Jafnframt verður velt vöngum yfir því hvort tilgangurinn helgi meðalið þegar um manngerða hamfararhlýnun hnattarins er um að ræða.
Aðlögun að loftlagsbreytingum í litlum og afskekktum samfélögum sem búa við snjóflóðahættu á Íslandi
Jóhanna Gísladóttir, doktor í umhverfis- og auðlindafræði
Í samnorrænni rannsókn sem ber heitið CliCNord, sem nú stendur yfir, er markmiðið að greina getu og aðlögunarhæfni lítilla og afskekktra samfélaga til þess að takast á við aukna hættu náttúruhamfara á tímum loftlagsbreytinga víðsvegar á Norðurlöndunum. Í íslensku rannsókninni er sjónum beint að snjóflóðahættu á Vestfjörðum, en samkvæmt Veðurstofu Íslands geta loftslagsbreytingar aukið líkur á náttúruhamförum á landinu vegna veðuröfga. Því er nauðsynlegt að auka viðbúnað vegna áhrifa sem tengjast loftslagsbreytingum. Til skoðunar er hvaða skilning lítil og afskekkt samfélög leggja í eigin aðstæður, hvernig þau takast á við náttúruhamfarir og hvaða rammi er til staðar varðandi utanaðkomandi aðstoð frá yfirvöldum og hjálparsamtökum.
Samfélags- og loftslagsvá? Hvers konar traust hefur áhrif á stuðning einstaklinga við mismunandi stefnur stjórnvalda í loftslagsmálum?
Sóllilja Bjarnadóttir, doktorsnemi í félagsfræði við HÍ.
Flestar rannsóknir um stuðning einstaklinga gagnvart loftslagsaðgerðum snúa að því hvort einstaklingar styðji aukna skattlagningu á jarðefnaeldsneytum. Ítrekað hefur verið sýnt fram á að einstaklingar ákveða hvort þeir styðji aðgerðir í loftslagsmálum út frá hverju þeir sjálfir þurfa að fórna en einn af þeim þáttum sem virðist hafa áhrif á þetta samband er traust. Í þessari rannsókn skoðum við með megindlegri aðferðafræði hvort pólitískt traust og stofnanatraust hafi áhrif á stuðning einstaklinga á Íslandi við þrjár mismunandi stefnur stjórnvalda í loftslagsmálum, hvort einstaklingar styðji að 1) hækka skatta á jarðefnaeldsneytum, 2) að styrkja með opinberri fjármögnun nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, og 3) hvort einstaklingar styðji réttlát umskipti. Réttlát umskipti vísa til þess að skref okkar í átt að kolefnishlutlausu hagkerfi verður að vera byggt upp á réttlæti. Niðurstöðurnar sýna að pólitískt traust leiddi til meiri stuðnings til skattlagningar á meðan stofnanatraust hafði áhrif á allar þrjár stefnurnar. Einstaklingar með stofnanatraust voru því líklegri til að: styðja skattlagningu, vilja styrkja með opinberri fjármögnun nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og styðja við réttlát umskipti. Ályktun niðurstaðanna er su að viðhorf fólks um virkni samfélagsins tengist trausti til mismunandi stofnana þeirra og getur því aukið stuðning þeirra við mismunandi stefnur stjórnvalda í loftslagsmálum.
Ráðstefnan er haldin í samstarfi Félags stjórnmálafræðinga, Félagsfræðingafélags Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.
Öll velkomin