Header Paragraph

Samstarf við portúgalska stjórnsýslustofnun með stuðningi Uppbyggingarsjóðs EES 

Image
©Kristinn Ingvarsson

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála á nú í samstarfi við INA - Stofnun opinberrar stjórnsýslu í Portúgal sem fer m.a. með málefni fræðslu, þróunar o.fl. innan portúgalskrar stjórnsýslu. Samstarfið er fjármagnað af Uppbyggingarsjóði EES.* 

Á dögunum heimsóttu fimm fulltrúar INA Ísland og áttu hér fundi með sérfræðingum forsætisráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis. Þá fundaði sendinefndin með sérfræðingum Reykjavíkurborgar og með Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, auk þess að fræðast um Alþingi og skoða húsakynni þess. Fjallað var um stefnumörkun um sjálfbæra þróun og velsæld, stefnumótun og árangur umbóta í opinberri stjórnsýslu, aðgengi að upplýsingum um fjármál og fjárreiður hins opinbera, stafræna stjórnsýslu, þjálfun, fræðslu, árangursstýringu, árangursmælingar, nýsköpun í opinberri stjórnsýslu, íbúalýðræði, þátttöku borgaranna og margt fleira.  

Fulltrúar INA töldu sig hafa lært margt gagnlegt af fundum sínum með fulltrúum íslenskrar stjórnsýslu en hlutverk INA er ekki síst að deila slíkri reynslu og fróðleik innan portúgalskrar stjórnsýslu – „best practice“. Að sama skapi höfðu þau margt fram að færa sem íslenskum viðmælendum þótti áhugavert og þegar hafa átt sér stað gagnkvæm skipti á upplýsingum í framhaldi af heimsókninni. 

Samstarfið heldur áfram og m.a. munu á komandi hausti nokkrir fulltrúar íslenskrar stjórnsýslu heimsækja Lissabon og fræðast um ýmis sambærileg mál o.fl. þar í landi.  

*Uppbyggingarsjóður EES er fjármagnaður af EFTA EES ríkjunum Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Sjóðnum er ætlað að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu. 

 

Image
©Kristinn Ingvarsson
Image
SogS
Image
for
Image