Stofnunin hélt vel heppnað nýtt námskeið um opinbera stefnumótun þann 7. febrúar sl. Kennari var Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, prófessor í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.
Á námskeiðinu var m.a. fjallað um stefnumótun í víðu samhengi með stuttri lýsingu á dagskrárkenningum, mismunandi tegundum framsalskenninga sem lýsa framsali á valdi og ábyrgð í þingræðisskipulagi fulltrúalýðræðisins, og hvernig og hvers vegna tengslanet í opinberri stjórnsýslu eru tilkomin og hvernig þetta skipulagsform er að setja framsal valds og ábyrgðar í stigveldisskipulaginu í ákveðið uppnám. Fjallað var í stuttu máli um kenningar um aðgreiningu stjórnmála og stjórnsýslu og varpað fram dæmum um það í íslenskri stjórnsýslu, og að lokum var stutt umfjöllun um það hvernig skoða má innleiðingu opinberrar stefnu.
Enn er hægt að nálgast upptöku af námskeiðinu (sem var þrjár klst að lengd) og er áhugasömum bent á að hafa samband við stofnunina sé áhugi á því.