Header Paragraph

Áhugaverðar stjórnsýslukynningar í Lissabon

Image

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála á nú í samstarfi við INA - Stofnun opinberrar stjórnsýslu í Portúgal sem fer m.a. með málefni fræðslu, þróunar o.fl. innan portúgalskrar stjórnsýslu. Samstarfið er fjármagnað af Uppbyggingarsjóði EES.* 

Á dögunum heimsóttu forstöðumaður stofnunarinnar og fjórir fulltrúar íslenskrar stjórnsýslu Lissabon þar sem INA hafði skipulagt þriggja daga dagskrá með kynningum á ýmsum verkefnum og áskorunum í portúgalskri stjórnsýslu. Frá íslenskri stjórnsýslu var um að ræða fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Sömu aðilar tóku á móti portúgalskri sendinefnd sem heimsótti Ísland í maí sl.

Öll ráðuneyti í eitt hús og miðlæg stofnun opinberrar stefnumótunar og eftirfylgni
Meðal þess sem fjallað var um var stjórnendaþjálfun hjá hinu opinbera og hagnýt námskeið fyrir opinbera starfsmenn, rýni og upplýsingagjöf sérstakrar sjálfstæðrar stofnunar um opinber fjármál, aðgangur að upplýsingum og siðareglur um starfsemi hins opinbera, stuðningur við nýsköpun, umbætur í opinberri stjórnsýslu, miðlæg opinber stefnumótun – m.a. á sviði loftslagsmála – íbúalýðræði, húsnæðisstefna og margt fleira. 

Meðal einstakra erinda má nefna að ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins (eða öllu heldur sá sem á ensku kallast Secretary General of the Presidency of the Council of Ministers) fjallaði um umbætur í opinberri stjórnsýslu, stefnumiðaða stjórnun og fjölþjóðlegt samstarf. Hann greindi meðal annars frá því stóra verkefni að færa smám saman öll ráðuneytin inn í eina stóra byggingu sem áður hýsti stærsta viðskiptabanka landsins. Taldi hann mikið hagræði fylgja þeim breytingum, sem þó nutu ekki mikilla vinsælda hjá starfsfólki allra ráðuneytanna enda oft um að ræða verulega breytingu á starfsumhverfi.

Þá greindi forstjóri PlanAPP, sérstakrar miðlægrar stofnunar fyrir opinbera stefnumótun og eftirfylgni, frá starfsemi og þróun stofnunarinnar sem sett var á laggirnar árið 2021, m.a. út frá stefnumótun á sviði loftslagsmála.

Íslenska sendinefndin lærði margt gagnlegt af heimsókninni og fólk tekur með heim nýja sýn á ýmis viðfangsefi í íslenskri stjórnsýslu. Að sama skapi töldu þau portúgölsku sig hafa lært mjög margt af heimsókn sinni hingað til lands í maí sl. og af samtölum við íslensku sendinefndina á fundunum í Lissabon. 

Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála verður áfram í samstarfi við portúgölsku stofnunina INA og aðrir fulltrúar í íslensku stjórnsýslunni hafa greiðan aðgang að frekari upplýsingum frá þessum samstarfsaðilum, en þegar hafa átt sér stað gagnkvæm skipti á upplýsingum í framhaldi af heimsóknum aðila. 

*Uppbyggingarsjóður EES er fjármagnaður af EFTA EES ríkjunum Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Sjóðnum er ætlað að draga úr félagslegum og efnahagslegum ójöfnuði innan Evrópska efnahagssvæðisins og efla tvíhliða samstarf milli EFTA ríkjanna innan EES og fimmtán viðtökuríkja sjóðsins í Evrópu. 

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá íslensku sendinefndina á tröppum INA, með nokkrum úr hópi starfsfólki hennar. Frá Íslandi eru þar Eggert B. Guðmundsson frá forsætisráðuneyti, Óli Örn Eiríksson frá Reykjavkurborg, Elva Björk Sverrisdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Pétur Berg Matthíasson frá háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneyti og Gústaf Adolf Skúlason frá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. 

Á myndinni efst í fréttinni er íslenska sendinefndin með forstjóra og stjórnarformanni INA.

Image